18 feb. 2013

BSRB undirritar samkomulag um endurskoðun kjarasamninga við ríki og sveitarfélög

BSRB hefur fyrir hönd aðildarfélaga sinna undirritað samkomulag um endurskoðun kjarasamninga við bæði fjármálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga. Enn á eftir að ljúka endurskoðun samninga við Reykjavíkurborg.

„Samningstími er styttur um tvo mánuði og samkomulagið er í takti við það sem aðrir hafa verið að gera. Mikilvægast þykir mér að allir samningsaðilar ætli að einbeita sér að því að bæta vinnubrögðin við gerð kjarasamninga," segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, en bandalagið hefur haft frumkvæði að því að bæta vinnubrögðin við gerð kjarasamninga.  Heildarsamtök launafólks á vinnumarkaði hafa tekið undir þessar kröfur BSRB og hefur ríkissáttasemjara verið falið að vinna að verkefninu.

„Það er mikill vilji bæði hjá launagreiðendum og fulltrúum launafólks að kafa ofan í hvernig við getum bætt vinnubrögðin svo að vinnan megi vera markvissari. Það leiðir vonandi til betri kjara fyrir okkar félagsmenn en ég tel að allir munu hagnast verulega af því að bæta vinnubrögðin og ganga markvisst til verks. Sérstaklega er mikilvægt að tryggja að kjarasamningur taki við af kjarasamningi," segir Elín Björg en sú staða hefur komið upp að kjarasamningar séu lausir jafnvel svo mánuðum skipti.

„Það er eitthvað sem á ekki þekkjast og þess vegna bindum við hjá BSRB miklar vonir við að átak til að bæta vinnuferlið við gerð kjarasamninga muni skila miklu."

Í samkomulaginu sem var undirritað í dag, annars vegar við fjármálaráðuneytið og hins vegar við Samband íslenskra sveitarfélaga, er gildistími núgildandi kjarasamninga styttur um tvo mánuði. Þar með gilda kjarasamningar við ríki til 31. janúar 2014. Umsamin eingreiðsla upp á 38.000 krónur færist frá 1. mars 2014 til 1. janúar 2014 en ásamt því verður áhersla lögð á að vinna áfram að þeim málum sem fram koma í bókunum og fylgiskjölum sem gerðar voru í síðustu kjarasamningum.

Í endurskoðuðum samningi við Samband íslenskra sveitarfélaga færist gildistími einnig fram um tvo mánuði. Þess utan eru allir aðilar sammála um að vinna að bættum vinnubrögðum við gerð samninga. Það gildir fyrir bæði ríki og sveitarfélög.

Fundur með samninganefnd Reykjavíkurborgar hefur síðan verið boðaður eftir helgi.

Samkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga

Samkomulag við fjármálaráðuneyti