08 mar. 2013

Aðalfundur (1)

Ályktanir aðalfundar Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar

Kjaramál
Aðalfundur St. Rv. haldinn 7. mars 2013 leggur áherslu á að undirbúningur kjarasamninga hefjist sem allra fyrst með það fyrir augum að leiðrétta þá kaupmáttarrýrnun sem orðið hefur á undanförnum fjórum árum.

Kjaraskerðingar
Aðalfundur Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar 7. mars 2013 undrast óskammfeilni borgaryfirvalda sem bætt hafa kjarskerðingar hjá æðstu yfirmönnum og kjörnum fulltrúum, sem kynntar voru í bréfi dagsettu 25. janúar 2009, en hafa látið óbættar kjaraskerðingar  annarra starfsmanna sem kynntar voru í sama bréfi. Þetta stríðir mjög gegn staðhæfingum bréfsins um að kjaraskerðingnar yrðu tímabundnar, samræmdar og gagnsæjar.
St.Rv. krefst þess að viðsemjendur félagsins bæti launaskerðingar sem hafa orðið vegna hrunsins.  

Kynbundinn launamunur
Enn mælist óútskýrður launamunur milli karla og kvenna. Aðalfundur Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar 7. mars 2013 skorar á vinnuveitendur til þess að taka til á sínum vinnustað og útrýma þeim ósóma.

Álag á starfsmenn
Aðalfundur Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar 7. mars 2013 telur óásættanlegt að starfsmenn vinni  undir svo miklu álagi sem fram kemur í könnunum okkar. Fundurinn krefst þess að brugðist verði við vandanum, vinnuaðstæður bættar og starfsmönnum fjölgað, þar sem verkefnum hefur ekki fækkað.

Stytting vinnuvikunnar
Aðalfundur Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar haldinn 7. mars skorar á stjórnvöld, fulltrúa atvinnulífsins og fulltrúa launafólks að leita allra leiða til að stytta vinnuvikuna.


Verðtrygging
Aðalfundur Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar haldinn 7. mars 2013 kallar á skjótar aðgerðir til leiðréttingar verðtryggðra lána  Fundurinn mótmælir því að ábyrgir lántakendur verðtryggðra lána séu  einhliða látnir bera ófyrirséðar og óréttmætar afleiðingar hrunsins á lán þeirra á meðan mikið og gott starf hefur verið unnið til að rétta hlut annarra lántakenda.