12 maí 2016

Stofnun ársins 2016

Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar (St.Rv.) kynnir niðurstöður úr könnuninni um Stofnun ársins Borg og bær fimmta árið í röð. Niðurstöður voru kynntar í Hörpunni að viðstöddu fjölmenni fyrr í kvöld. Könnun meðal félagsmanna er unnin í samstarfi við SFR stéttarfélag, VR og fjármála- og efnahagsráðuneytið og framkvæmd af Gallup. Þetta er stærsta reglulega vinnumarkaðskönnun sem framkvæmd er hér á landi og var úrtakið tæplega 50.000 manns.
Stofnunum er skipt í tvo flokka eftir stærð, stofnanir með 50 starfsmenn eða fleiri og minni stofnanir með allt að 49 starfsmenn.
 Stofnun ársins Borg og bær í flokki stærri stofnana er Frístundamiðstöðin Kampur með einkunnina 4,419.

 Stofnun ársins Borg og bær í flokki minni stofnana er Skrifstofa Íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur með einkunnina 4,902.

 Titilinn Hástökkvari fær sú stofnun sem hækkar sig mest á milli ára. Í ár er það Skrifstofa Íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur sem hlýtur þann titil (auk þess að vera Stofnun ársins Borg og bær í flokki minni stofnana).

Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar veitir einnig fjórum öðrum stofnunum í hvorum flokki viðurkenningar með því að útnefna þau Fyrirmyndarstofnanir 2016.

Fyrirmyndarstofnanir í flokki stærri stofnana eru:
 Frístundamiðstöðin Frostaskjól
 Norðlingaskóli
 Frístundamiðstöðin Miðberg
 Orkuveita Reykjavíkur

Fyrirmyndarstofnanir í flokki minni stofnana eru:
 Leikskólinn Vallarsel á Akranesi
 Fossvogsskóli
 Grafarvogslaug
 Umhverfis- og skipulagssvið -skrifstofa sviðsstjóra og Landupplýsingadeild

Könnunin gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu starfsmanna á vinnumarkaði. Tilgangur að baki vals á Stofnun ársins – Borg og bær er hvatning til stjórnenda að gera vel í starfsmannamálum og mikilvægur samanburður fyrir starfsmenn. Þátttakendur eru spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og nú bætist við nýr þáttur sem fjallar um jafnrétti.

Sjá nánar hér