05 apr. 2018

Líflegur aðalfundur

Aðalfundur Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar var haldinn í dag. Góð mæting var á fundinn og eftir venjulega aðalfundarstörf sem gengu fljótt og vel fyrir sig voru eftirfarandi ályktanir samþykktar.

Félagslegur aðbúnaður erlendra starfsmanna
Aðalfundur St.Rv. 2018 krefst þess að atvinnurekendur tryggi félagslegt öryggi erlends starfsfólks og aðgengi þeirra að nauðsynlegum upplýsingum sem snerta ráðningu þeirra, réttindi og hagsmuni á því tungumáli sem það skilur. Um leið skorar aðalfundur St. Rv. 2018 á BSRB að standa að gerð aðgengilegs upplýsingaefnis á ensku og pólsku um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Heilbrigt vinnuumhverfi fyrir alla
Aðalfundur St. Rv. 2018 telur mikilvægt að vinna að því með faglegum hætti að útrýma hvers konar mismunun, ofbeldi eða áreitni á vinnustöðum og með reglulegum hætti sé gerð úttekt á félagslegum aðbúnaði starfsfólks. Ef starfsfólk verður fyrir áreiti skal tryggt að upplýsingar um viðbrögð atvinnurekanda séu öllum starfsmönnum aðgengilegar.  Aðalfundur beinir því til stjórnar félagsins að fylgja þessari ályktun eftir í eigin starfi og í samstarfi við önnur stéttarfélög og aðra hlutaðeigandi aðila með fræðslu og upplýsingagjöf.

Stytting vinnuvikunnar
Aðalfundur St. Rv. 2018 fagnar tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar. Jafnframt skorar fundurinn á  Reykjavíkurborg að fyrirbyggja mismunun og tryggja öllum stofnunum þátttöku í tilraunaverkefninu. Skorar fundurinn á aðra viðsemjendur félagsins að feta í sömu spor og leggur áherslu á að í næstu kjarasamningum verði samið um almenna styttingu vinnuvikunnar án tekjuskerðingar. 

Aðbúnaður barnafólks
Aðalfundur St.Rv. 2018 telur nauðsynlegt að atvinnurekendur komi til móts við foreldra ungra barna með því að fjölga dögum vegna veikinda  barna, bæta orlofsréttindi á vetrartíma til samræmis við vetrarfrí og starfsdaga í grunn- og leikskólum og auka sveigjanleika í vinnutíma foreldra. Fundurinn  telur brýnt að samninganefndir félagsins beiti sér fyrir afnámi aldurstengingar í orlofsrétti og auknum sveigjanleika í vinnutíma í næstu kjarasamningum.

Umönnunarbilið  
Aðalfundur St. Rv. 2018 krefst þess að sveitarfélögin leysi hið fyrsta þann vanda sem foreldrar ungra barna standa frammi fyrir vegna skorts á leikskólarýmum. Skorað er á stjórnvöld að leysa málið í heild sinni með tilliti til lengdar fæðingarorlofs og framboðs leikskólaplássa. 

Lenging fæðingarorlofs
Aðalfundur St. Rv. 2018 skorar á ríkisstjórn Íslands og Alþingi að lengja nú þegar fæðingarorlof úr 9 mánuðum í 12 mánuði.

Sérstakar aðstæður vegna umönnunar náinna aðstandenda
Aðalfundur St. Rv. 2018 telur nauðsynlegt að stjórn St.Rv. og samninganefndir setji inn í kröfugerð fyrir næstu samninga að tekið verði sérstakt tillit til veikinda maka, foreldra eða annarra fjölskyldumeðlima samanber veikindarétt vegna barna.

Launajafnrétti
Um leið og aðalfundur St.Rv. 2018 fagnar þeim árangri sem Reykjavíkurborg hefur náð í því að jafna laun karla og kvenna krefst  fundurinn þess, annars vegar, að starfsmenn sveitarfélaga búi við sömu kjör og ríkisstarfsmenn, og hins vegar, verði verulega hraðað þeirri vinnu að jafna mun á launum opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði.