02 júl. 2019

Samkomulag um endurskoðun á viðræðuáætlun

Gengið hefur verið frá samkomulagi um endurskoðaða viðræðuáætlun við ríki, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og Stætó.
Í samkomulaginu kemur fram að aðilar stefni á að hafa náð samningum fyrir 15. september. Þar er fjallað um skipulag viðræðna og vinnubrögð.

Aðilar sammælast um að á gildistíma framlengdrar viðræðuáætlunar ríki friðarskylda. Með hliðsjón af því svo og þess að aðilar eru sammála um að sá tími sem áætlaður var til að ræða þær umfangsmiklu kerfisbreytingar sem m.a. felast í hugsanlegri launaþróunartryggingu, breyttu fyrirkomulagi vinnutíma og fleiri atriðum hafi verið vanmetin. Þar sem langt er síðan gildistími síðustu kjarasamninga rann sitt skeið, eru aðilar ásáttir um að innágreiðsla að upphæð 105.000

kr. verði greidd hverjum starfsmanni miðað við fullt starf. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 30. júní 2019. Greiðslan kemur til útborgunar 1. ágúst 2019. Það er sameiginlegur skilningur aðila að ofangreind fjárhæð sé hluti fyrirhugaðra launabreytinga og gildistíma hins endurnýjaða kjarasamnings og verði metinn sem hluti kostnaðaráhrifa hans. Einnig hefur sambærilegt samkomulag verið gert við Orkuveituna þar sem greitt er 100.000 kr. fyrirfram 1. ágúst.

Öllum viðsemjendum Sameykis verður sent bréf þar sem farið er fram á að gert sé sambærilegt samkomulag um endurskoðun á viðræðuáætlun.