LAUNAKÖNNUN 2014

Launakönnun St.Rv. lítur nú dagsins ljós fjórða árið í röð, en félagið fól Capacent Gallup vinnslu könnunarinnar, en félagsmenn voru spurðir um laun sín í febrúar 2014. Á undanförnum árum hefur verið gott samstarf við SFR og VR við vinnslu könnunarinnar. 

Þetta er viðamikil könnun og kemur þar margt fram sem nýta má í komandi kjarasamningsviðræðum. Meðal þess helsta er að óánægja með launakjör er gífurlega mikil og þó að smá blæbrigðamunur sé þar á, þá virðist óánægjan ná til allra stétta.

Einnig var spurt hvaða laun fólki finnist sanngjörn fyrir sína vinnu – miðað við fullt starf. Munur á sanngjörnum launum og raunverulegum launum er nú tæplega 28% og er heldur minni en síðustu þrjú árin.  Eins og áður munar talsverðu í launavæntingum kynjanna.  Að meðaltali telja konur sanngjarnt að fá 463 þúsund á mánuði, en karlar telja sanngjarnt að fá 519 þúsund fyrir fullt starf.  Þar munar tæpum 11% á væntingum kynjanna – sem er sami munur og fæst séu borin saman raunveruleg uppreiknuð heidarlaun karla og kvenna í fullu starfi.   

Kynbundinn launamunur heildarlauna, þ.e. þegar tekið hefur verið tillit til ýmissa þátta sem áhrif hafa á laun, er 6% en hefur verið um 8-10% síðustu þrjú ár. Breytingar eru innan skekkjumarka, en engu að síður verður að telja þetta vísbendingu um að dregið hafi úr kynbundnum launamun hjá St.Rv. félögum. Við útreikninga liggja til grundvallar heildarlaun fólks í fullu starfi. Tekið er tillit til áhrifa fjölmargra þátta í útreikningunum þannig að sá munur sem fram kemur á launum karla og kvenna skýrist ekki af mismunandi vinnutíma, ólíkum starfsgreinum, atvinnugreinum, eða vegna mismunar á aldri, starfsaldri, menntun, eða mannaforráðum karla og kvenna.
Munur á grunnlaunum karla og kvenna hjá St.Rv. hefur verið óverulegur undanfarin ár og þar mælist ekki kynbundinn launamunur nú frekar en síðustu ár.

Nærri 3 af hverjum 4 telja að starfsöryggi þeirra sé svipað og fyrir ári og er það svipað og í síðustu könnun. Tæplega 9% segja að dregið hafi úr starfsöryggi.

Trúnaður
Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar áréttar að alger trúnaður ríkir við framkvæmd könnunarinnar. Mjög ströngum reglum er fylgt af Capacent við úrvinnslu gagnanna og geymslu þeirra. Öllum úrtakslistum er síðan eytt þegar niðurstöður hafa verið birtar og verkefni formlega lokið.

Mikilvægt að taka þátt
Það skiptir félagsmenn og St.Rv. miklu máli að sem flestir taki þátt í könnuninni. Launakönnunin veitir okkur öllum mikilvægar upplýsingar um þau laun og starfskjör sem félagsmenn okkar búa við. Einnig eru þessar upplýsingar mikilvægar í allri kjarabaráttu en á þeim vettvangi er nauðsynlegt að hafa sem best og nákvæmust gögn til að vinna með. Því hvetjum við alla okkar félagsmenn til að taka þátt.


Eins og áður sagði er þetta viðamikil könnun og er henni gerð skil í Blaði Stéttarfélaganna sem kemur til félagsmanna á næstu dögum og komandi blöðum.