Stofnun Ársins - Borg og Bær 2014

Niðurstöður úr könnuninni um valið á Stofnun ársins - Borg og bær 2014 eru kynntar, fimmtudaginn 22. maí. St.Rv. velur nú „Stofnun ársins – Borg og Bær“ í þriðja sinn. Stærsti hópur félagsmanna St.Rv. starfar hjá Reykjavíkurborg en auk þess starfa félagsmenn hjá fyrirtækjum Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstað, Seltjarnarneskaupstað,  ríki og fleirum.

Val á Stofnun ársins og Fyrirtæki ársins er samvinnuverkefni  SFR stéttarfélags, VR. og  St.Rv. auk Starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisinsins sem tekur þátt í könnuninni fyrir alla starfsmenn.

Könnunin er stærsta reglulega vinnumarkaðskönnun sem framkvæmd er hér á landi og gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu starfsmanna á vinnumarkaði. VR hefur útnefnt Fyrirtæki ársins síðastliðin 18 ár og SFR hefur staðið fyrir vali á Stofnun ársins síðastliðin 8 ár.  Með því að taka þátt í þessu samvinnuverkefni þá gefst St.Rv. tækifæri til að bera saman viðhorf félagsmanna St.Rv. og félagsmanna VR og SFR.

Samanburð á einkunnagjöf milli félaga má finna hér

Af hverju Stofnun ársins - Borg og bær?
Könnun sem þessi gefur góða mynd af starfsumhverfi og starfsánægju starfsmanna stofnunar/fyrirtækis. Starfsmenn geta notað niðurstöðurnar til að meta eigin vinnustað í samanburði við aðrar stofnanir og fyrirtæki. Einnig er hér ekki síður tækifæri fyrir stjórnendur að gera sér grein fyrir stöðu starfsmannamála í stofnuninni og hvar þeir standa í samanburði við aðra. Það er mikilvægt að stjórnendur taki niðurstöðunum með jákvæðu hugarfari og horfi fyrst og fremst á þessa úttekt sem mikilvægt skref til að hlúa að því sem vel er gert og  bæta og breyta því sem betur má fara í starfinu. 

Í könnun St.Rv. á Stofnun ársins - Borg og bær er leitað eftir viðhorfi félagsmanna  til vinnu sinnar og yfirmanna, líðan þeirra í starfi, starfsumhverfi, tækjabúnað og hvernig samskiptum er háttað á vinnustaðnum. 62 stofnanir komust á lista í ár. Meðaleinkunn þessara 63 stofnanna er 3,79 og hækkar örlítð milli ára.

Stórar stofnanir – með 50 starfsmenn eða fleiri

1. sæti – Orkuveita Reykjavíkur

Einkunn: 4,132

Fjöldi starfsmanna: 385

Starfsfólk Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækja vinnur að öflun og dreifingu orku og vatns ásamt því  að sinna alhliða þjónustu við viðskiptavini. Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur eru að Bæjarhálsi í Reykjavík. 

Upphaf starfsemi Orkuveitunnar má rekja aftur til áranna 1909, þegar vatnsveita var stofnuð í Reykjavík, 1921 þegar Rafstöðin við Elliðaár varð upphaf Rafmagnsveitu Reykjavíkur og 1930 þegar fyrstu húsin í Reykjavík voru tengd hitaveitu úr Þvottalaugunum í Laugardal. Starfssvæði Orkuveitunnar hefur stækkað umtalsvert og nær nú til Suður- og Vesturlands auk höfuðborgarsvæðisins. Árið 2002 var sameignarfyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur stofnað en þá sameinuðust Akranesveita, Andakílsárvirkjun og Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar veiturekstrinum á höfuðborgarsvæðinu

 

2. sæti – Frístundamiðstöðin Frostaskjól 

Einkunn: 4,097

Fjöldi starfsmanna:  111

Félagsmiðstöðin Frostaskjól hefur starfað frá árinu 1986. Síðan þá hefur þjónusta við hverfisbúa aukist mikið og Frostaskjól breyst í frístundamiðstöð. Frístundamiðstöðin Frostaskjól býður börnum og unglingum í Vesturbæ upp á fjölbreytt félags- og tómstundastarf þar sem áhersla er lögð á forvarnir sem og að beina þeim inn á braut heilbrigðs og jákvæðs lífernis. Frístundamiðstöðin Frostaskjól var í 1. sæti í stærri stofnunum á síðasta ári og í 5 sæti þar áður. Þannig að þetta er þriðja árið í röð sem þeir eru í efstu sætum.

3. sæti - Fræðslusvið Seltjarnarness leik, tón og grunnskóli

Einkunn: 4,087

Fjöldi starfsmanna: 150

Innan Fræðslusviðs Seltjarnarness er rekinn grunnskóli, leikskóli og tónlistarskóli. Sviðið hefur auk þess umsjón með daggæslu í heimahúsum. Innan grunnskóla Seltjarnarness starfa 90 manns en í leikskólanum starfa tæplega 58 og tveir fastir starfsmenn í Tónlistarskólanum. Á öllum þessum má sjá að það er rekið metnaðarfullt starf.

Minni stofnanir – með allt að 49 starfsmönnum

1.  sæti – Fjárhags- og stjórnsýslusvið Seltjarnarness
Einkunn: 4.576

Fjöldi starfsmanna: 11

Fjárhags- og stjórnsýslusvið Seltjarnarness hefur umsjón og eftirlit með fjármálalegri starfsemi Seltjarnarnesbæjar ásamt því að hafa umsjón með þróunarmálum og upplýsingatækni.

2. sæti - Leikskólinn Garðasel á Akranesi

Einkunn: 4.508

Fjöldi starfsmanna: 23

Garðasel er þriggja deilda leikskóli sem var stofnaður 1991. Í námskránni er lögð áhersla á lýðræði og jafnrétti. Börnin fá tækifæri til að koma að lýðræðislegum ákvörðunum sem varða leikskólastarfið sjálft, enda er litið svo á að börnin séu fullgildir þátttakendur í samfélagi leikskólans. Leikskólinn er jafnframt mikilvægur vettvangur til að jafna uppeldisaðstæður barna. Lögð er áhersla á að kennarar og stjórnendur í leikskólum fái svigrúm til að þróa leikskólastarfið á faglegan og skapandi hátt. Námssvið leikskólans eru læsi og samskipti, heilbrigði og vellíðan, sjálfbærni og vísindi, sköpun og menning.

3. sæti - Félagsbústaðir

Einkunn: 4.436

Fjöldi starfsmanna: 22

Félagsbústaðir er þjónustufyrirtæki á húsnæðismarkaði og á og rekur 2.222 leiguíbúðir í Reykjavík. Með stofnun hlutafélags um eignarhald og rekstur félagslegra leiguíbúða hefur reksturinn verið aðgreindur frá borgarkerfinu og hlutverk borgarinnar er að hafa eftirlit með gæðum þjónustunnar og veita nauðsynlegt aðhald varðandi rekstur og fjárhagsstöðu rekstraraðila. Starf félagsins felst m.a. í skrifstofuhaldi og stjórnun, umsjón með nýbyggingum og viðhaldi íbúða auk reglubundins reksturs, s.s. hirðingu lóða og viðhalds íbúða og lóða.

 

Hástökkvari - hækkar sig mest milli ára

Húsaskóli

Einkunn: 4.111

Fjöldi starfsmanna: 36

Húsaskóli er staðsettur í Grafarvogi í Reykjavík. Í stefnu sinni tekur skólinn mið af grunnskólalögum, Aðalnámskrá grunnskóla og framtíðarsýn Reykjavíkurborgar. Markmið skólans er að veita öllum nemendum góða menntun og tækifæri til að ná sem bestum þroska  til að lifa og starfa í íslensku þjóðfélagi. Einkunnarorðin sem skólinn hefur að leiðarljósi eru; virðing – ábyrgð – vinátta – starfsgleði – samvinna. Lögð er áhersla á að starfsfólk, nemendur og foreldrar tileinki sér einkunnarorðin svo samskiptin einkennist af hlýhug og umhyggju.

Töflur með niðurstöðum:

STOFNUN ÁRSINS BORG OG BÆR,  stofnanir með 50 starfsmenn eða fleiri

STOFNUN ÁRSINS BORG OG BÆR, stofnanir með allt að 49 starfsmenn

STOFNUN ÁRSINS BORG OG BÆR, allar stofnanir

STOFNUN ÁRSINS BORG OG BÆR, sérrit.

Niðurstöður úr launakönnunar hluta verða kynntar í september.