Orlofsmál

Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar rekur og leigir út orlofshús og íbúð til félagsmanna. Eignir félagsins eru í Munaðarnesi, við Úlfljótsvatn, að Efri- Reykjum í Biskupstungum, við Álftaavatní Grímsnesi, í Svínadal, að Eiðum og í Úthlíð auk íbúðar á Akureyri. Orlofshúsin eru staðsett í vinalegu umhverfi þar sem stutt er í alla nauðsynlega þjónustu fyrir ferðamenn. Til að auka möguleika félagsmanna til dvalar í orlofshúsum víðar um land hafa sumarhús og íbúðir verið leigðar tímabundið eða skipti eru á orlofshúsum við önnur stéttarfélög.

Um sumar og páska er orlofshúsunum úthlutað til félagsmanna samkvæmt ákveðnum reglum og fá félagsmenn send orlofsblað í pósti síðla vetrar. Vetrardvöl í orlofshúsunum dregur ekki úr réttindum félagsmanna til sumar- eða páskaúthlutunar.

Úthlutunarreglur eru miðaðar við starfsaldur/félagsaldur og hversu oft og hvenær viðkomandi félagsmaður hefur fengið úthlutun. Í orlofsnefnd sitja fulltrúar allra deilda og eru þeir kosnir á fyrsta fulltrúaráðsfundi nýs fulltrúaráðs, á tveggja ára fresti. 

Umgengni
Orlofshúsin eru sameign okkar allra í St.Rv. og nauðsynlegt að við sameinumst um að umgangast þau með því hugarfari. Mikilvægt er að hafa það að leiðarljósi að skilja við þau eins og við viljum koma að þeim. Orlofshúsagestir eru vinsamlegast beðnir um að reykja ekki innanhúss. Minnt er á að ekki er leyfilegt að hafa gæludýr með sér í húsin.