09 júl. 2019

Fleiri viðsemjendur samþykkja 105.000 kr. innágreiðslu

Eins og fram hefur komið gekk Sameyki frá samkomulagi um endurskoðaða viðræðuáætlun við stærstu viðsemjendur sína í byrjun mánaðarins. Samkomulagið felur í sér að aðilar stefni á það að hafa náð samningum fyrir 15. september næstkomandi og fram að þeim tíma gildi friðarskylda. Þar sem langt er síðan gildistími síðustu kjarasamninga rann sitt skeið, urðu aðilar ásáttir um að innágreiðsla að upphæð 105.000 kr. verði greidd hverjum starfsmanni miðað við fullt starf. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 30. júní 2019. Greiðslan kemur til útborgunar 1. ágúst 2019.

Af þessu tilefni var strax í kjölfarið farið fram á það við alla viðsemjendur Sameykis að gert yrði sambærilegt samkomulag. Flestir viðsemjendur hafa svarað og orðið við þessu. Einhverjir eiga enn eftir að svara og einn hefur þegar hafnað samkomulaginu, sem verður að teljast afar neikvætt í ljósi stöðunnar. Þetta eru Samtök fyrirtækja í Velferðarþjónustu (SFV) en í þeim eru fjölmargar stórar stofnanir á heilbrigðis- og félagssviði. Þar á bæ treysta menn sér ekki til þess að ná samkomulagi um hækkanir eða nokkrar greiðslur til starfsmanna þar sem ríkið hefur ekki tryggt fjármagn til þess. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem SFV bregst svona við og það er með ólíkindum að SFV, sem þó telst hafa samningsrétt við félagið geti ekki tekið slíkar ákvarðanir. Það mætti jafnvel spyrja hvort samningsrétturinn væri betur kominn hjá ríkinu, í stað SFV.

Þeir viðsemjendur sem hafa samþykkt samkomulagið, en fresturinn til þess að svara er til 12. júlí 2019, eru:
Ríkið, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga, Strætó, Tækniskólinn, Ás styrktarfélagi, Reykjalundur, Fjölmennt, Kirkjugarður Reykjavíkur, LSR, Orkuveitan, Heilsustofnun, Norræna húsið, Vinakot, Bændasamtökin, Fríhöfnin, Rarik, Faxaflóahafnir og Félagsbústaðir.